Lögregla á grísku eyjunni Santorini hefur handtekið karlmann, sem myrti unnustu sína, skar af henni höfuðið og gekk með það um götur bæjarins. Þykir þetta eitt óhugnanlegasta glæpamál, sem komið hefur upp í Grikklandi á síðari tímum.
Íbúar á eyjunni lokuðu sig inni og hringdu á lögreglu eftir að maðurinn, sem er 35 ára, gekk um göturnar með höfuð unnustu sinnar í fanginu. Þegar lögreglumenn komu á svæðið réðist maðurinn á þá vopnaður hnífi og skar einn lögreglumann í andlitið. Hann stal síðan lögreglubíl og reyndi að komast undan.
Eftir að hafa ekið um 400 metra ók maðurinn á mótorhjól sem tvær konur voru á. Þær köstuðust af hjólinu og slösuðust alvarlega. Lögreglan skaut þá á manninn og hittu hann fimm sinnum. Ein kúlan endurkastaðist af malbikinu og lenti í fótlegg og kjálka nærstaddrar konu.
Maðurinn var fluttur með herflugvél til Aþenu þar sem hann átti að gangast undir aðgerð á sjúkrahúsi.
Lögregla segir að maðurinn hafi komið við sögu hennar áður vegna heimilisofbeldis.