Óttast er að ellefu fjallgöngumenn hafi farist á fjallinu K2 á Himalajasvæðinu þegar snjóflóð féll á hóp sem var á leið niður af tindinum. Sænski fjallgöngumaðurinn Fredrik Sträng hefur í morgun sagt að hann hafi séð ellefu félaga sína verða undir flóðinu, þar á meðal norskan fjallgöngumann. Leit stendur yfir á svæðinu.
Írski fjallgöngumaðurinn Pat Falvey segir hins vegar við fréttavef breska blaðsins The Times, að talið sé að sjö fjallgöngumenn hafi farist en fimm séu fastir í fjallshlíðinni. Falvey hefur eftir Cecilie Skog frá Noregi, að hún hafi séð Ralf Boe, eiginmann sinn, verða undir skriðunni. Eitt lík fannst í gærkvöldi og sé það talið vera Boe.
Slysið varð á svæði sem nefnt er Flöskuhálsinn. Þar hrundi ís úr fjallinu og með honum öryggislínur, sem fjallgöngumennirnir höfðu komið fyrir. Alls voru 17 fjallgöngumenn á leið niður þegar þetta gerðist.
Mannskæðasta slys, sem til þessa hefur orðið í fjallgöngu, varð árið 1996 þegar átta fjallgöngumenn fórust á Everestfjalli.
K2 er næsthæsta fjall heims, 8611 metra hátt. Það er á landamærum Pakistans og Kína.