Tugir slösuðust þegar eldingu laust niður

Tugir manna slösuðust þegar eldingu laust niður í Hedmark í Noregi í dag en þar fór fram keppni í rallíkrossi. Mikill fjöldi manna var að horfa á keppnina en eldingunni laust niður í hæð þar sem um hundrað áhorfendur voru.

Roger Hansen, sem var í hópi áhorfenda, segir við blaðið Østlendingen hann hafi setið á stól og fundið að stóllinn varð skyndilega brennheitur. Hann hafi fundið mikinn sársauka í fótunum og mjöðmunum og þetta hafi verið hræðileg lífsreynsla.

Á fréttavef Aftenposten segir, að 84 hafi gefið sig fram við lögreglu og talið sig hafa orðið fyrir áhrifum af eldingunni. Þrjár þyrlur, tvær sjúkraflugvélar og fjöldi sjúkrabíla voru send á staðinn og var um helmingur þeirra, sem gáfu sig fram, fluttur á sjúkrahús. Sjö höfðu áður farið á slysadeild.

Símakerfið, bæði fastlínukerfið og farsímakerfið, fór úr sambandi í þrumuveðrinu og gerði það björgunarmönnum erfitt fyrir að skipuleggja brottflutning. 

Alls voru um 2000 áhorfendur og 170 keppendur í  Finnskogen í Åsnes þar sem keppnin fór fram.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert