Dómari í Bretlandi sektaði í dag lággjaldaflugfélagið Globespan um fimm þúsnd pund fyrir að láta farþegaþotu fljúga yfir Atlantshafið með bilaða þrýstingsmæla. Tuttugu farþegar voru um borð, en ekki mun hafa stafað hætta af biluninni.
Flugfélagið viðurkenndi að Boeing 757 þotu hafi verið flogið frá Liverpool til New York í júní í fyrra með bilaða mæla. Þurfti áhöfnin að notast við aðra mæla í staðinn.
Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að félagið hefði brotið reglur um farþegaflug. Þótt ekki hafi verið hætta á ferðum kvaðst hann telja að Globespan hefði lært lexíu og myndi ekki brjóta lög framar.