Um tveir tugir manna, reiðir yfir því að vera bornir út úr húsum sínum í miðborg Peking, mótmæltu ekki langt frá Torgi hins himneska friðar. Sögðust þeir eiga sinn lagalega rétt sem ólympíuleikarnir gætu ekki tekið frá þeim. Mótmæli af þessu tagi eru sjaldgæf í Peking og vöktu talsverða athygli.
Einkennisklæddir lögreglumenn umkringdu fljótlega götuna þar sem fólkið var að mótmæla
Ein kona úr hópnum sagði við AP fréttastofuna, að þeir væru ekki á móti ólympíuleikunum. „En þeir mega ekki rífa húsin okkar," sagði hún.
Lögregla beitti sér ekki en kona, sem sagðist vera í hverfanefnd, fékk fólkið til að yfirgefa svæðið.
Borgaryfirvöld í Peking hafa varið jafnvirði um um 3200 milljarða króna til að endurnýja hús og hverfi í borginni vegna ólympíuleikanna, sem hefjast þar á föstudag. Verið er að rífa íbúðarhús í hverfinu en þar er verið að skipuleggja verslunarhverfi þar sem fyrirtæki á borð við Nike, Starbucks og Rolex munu bjóða vörur. Verður ný verslunarmiðstöð opnuð þar á fimmtudag.