Obama vill selja olíubirgðir

Barack Obama, forsetaframbjóðandi bandaríska Demókrataflokksins, hefur skipt um skoðun í orkumálum og lagði í dag til, að 70 milljónir tunna yrðu seldar af varabirgðum Bandaríkjanna með það að markmiði að lækka eldsneytisverð.

Til þessa hefur Obama lýst andstöðu við að selja af birgðunum en í ræðu um orkumál, sem hann flutti í Michigan í dag, sagði hann að olíuverð hefði ávallt lækkað skömmu eftir að hluti af olíubirgðum Bandaríkjanna hefur verið settur á markað.

Framboð Obama birti einnig í dag sjónvarpsauglýsingar þar sem fullyrt er að John McCain, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, verði „í vasanum" á stóru olíufélögunum verði hann kjörinn forseti. Með þessu vill Obama undirstrika tengsl McCains við George W. Bush, forseta, sem hefur verið hliðhollur olíufélögum. 

Obama sagði einnig í ræðunni, að bandarískum stjórnmálamönnum hefði í þrjá áratugi mistekist að fást við orkuvandann og McCain væri þar ekki undanskilinn. 

Frambjóðandinn sagði að Bandaríkjamenn væru haldnir olíufíkn og það væri eitt helsta viðfangsefni núverandi kynslóðar að vinna bug á þeirri fíkn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert