Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur skipað 1.250 hermönnum sem nú starfa við að þjálfa afganskar öryggissveitir að dveljast mánuði lengur í Afganistan. Einnig hefur bandaríski varnarmálaráðherrann, Robert Gates, skipað 200 hermönnum í viðbót að fara þangað.
Þetta hefur fréttastofan AP eftir heimildarmanni sínum en ekki er búið að tilkynna um ákvörðunina opinberlega.
Stutt er síðan annarri sveit var skipað að dveljast lengur í landinu, en herstjórnendur hafa átt í erfiðleikum með að tína til þá hermenn sem búið var að ákveða að senda til Afganistan, en meðal þeirra sem munu fara út til stuðnings þeim hermönnum sem fyrir eru í Afganistan eru verkfræðingar og sprengjuleitarmenn.
Liðsauki Bandaríkjamanna kemur að miklu leyti til vegna tregðu annarra NATO ríkja fyrr á árinu að senda fleiri til Afganistan.
Herstjórnendur segja að þeir þurfi að minnsta kosti 10.000 hermenn í viðbót til að taka þátt í bardögum. Stjórnendur heima í Bandaríkjunum hafa látið í ljós vilja til að verða við því, að minnsta kosti að einhverju leyti, á næsta ári.
Herstjórnendurnir segja hins vegar að það sé nauðsynlegt að losa um hermenn í Írak til að senda til Afganistan. Með batnandi ástandi í Írak sé jafnvel hægt að senda menn sem áttu að fara til Íraks seinna á árinu til Afganistan í staðinn.