Frönsk yfirvöld hafna alfarið ásökunum sem fram koma í nýrri skýrslu rannsóknarnefndar í Rúanda. Í henni eru hátt settir ráðamenn, þar á meðal Francois Mitterand, fyrrverandi Frakklandsforseti, ásakaðir um að hafa komið að þjóðarmorðinu 1994. Frakkar segja ásakanirnar óásættanlegar.
Talsmaður franska utanríkisráðuneytisins, Romain Nadal, dró hlutleysi nefndarinnar í efa en hún er skipuð af dómsmálaráðuneyti Rúanda. Hann sagði að niðurstöður kæmu ekki á óvart þegar litið væri á titil skýrslunnar en hún heitir: Sjálfstæð nefnd á vegum yfirvalda í Rúanda hvers tilgangur er að safna sönnunargögnum um aðild franska ríkisins að þjóðarmorðinu í Rúanda 1994.
Í skýrslunni er fyrrverandi forsætisráðherra Frakkklands, Dominique de Villepin, sömuleiðis sökuð um aðild að þjóðarmorðinu en í því létust 800.000 manns. Þá er sagt að franskir hermenn hafi tekið beinan þátt í aftökunum.
Stjórnvöld í Rúanda og samtök eftirlifenda hafa oft sakað Frakka um að hafa þjálfað og stutt fjárhagslega við vígamennina og fyrri stjórnarher landsins sem leiddi þjóðarmorðið. Skýrslan fer hins vegar í smáatriði og nafngreinir franska leiðtoga sem eiga að hafa komið að málinu.
Vígamenn hútúa slátruðu fólki sem tilheyrði minnihlutaættbálki tútsa sem og hófsömum hútúum í blóðsúthellingunum sem stóðu frá apríl til júlí 1994. Frönsk yfirvöld hafa ítrekað neitað því að hafa aðstoðað eða stjórnað vígamönnum hútúa.
Dómsmálaráðherra Rúanda sagði í gær að land hans hefði ekki á prjónunum að sækja Frakka til saka.
Frönsk þingnefnd sýknaði frönsk yfirvöld árið 1998 af aðild að morðinu. Þingið sagði þó að fleiri en ein frönsk ríkisstjórn hefði veitt öfgahægri stjórn Rúanda stjórnmálalegan og hernaðarlegan stuðning á tímabilinu 1990 til 1994.
Frakkland og Rúanda hafa oft átt í erjum vegna þjóðarmorðsins og sleit stjórn Rúanda stjórnmálasambandi við Frakkland einu sinni. Var það gert í kjölfar þess að franskur rannsóknardómari ásakaði forseta Rúanda, Paul Kagame, um að hafa fyrirskipað morðið á fyrrverandi forseta landsins, Juvenal Habyarimana, árið 1994. Kveikjan að þjóðarmorðinu var að flugvél Habyarimana fórst.
Rúanda endurnýjaði stjórnmálasambandið og franski utanríkisráðherrann, Bernard Kouchner, heimsótti Rúanda í janúar.