Borgarstjóri japönsku borgarinnar Hiroshima hvatti í morgun væntanlegan forseta Bandaríkjanna til að styðja tillögu Japana innan Sameinuðu þjóðanna, um að banna kjarnorkuvopn. Þess var minnst að 63 ár eru liðin frá því kjarnorkusprengju var varpað á Hiroshima.
Tadatoshi Akiba, borgarstjóri Hiroshima, sagði að 170 ríki innan SÞ styddu tillöguna en aðeins þrjú, þar á meðal Bandaríkin, væru henni andvíg. „Við verðum að vona að forseti Bandaríkjanna, sem verður kjörinn í nóvember, hlusti á meirihlutann," sagði Akiba.
Talið er að 45 þúsund manns hafi safnast saman í miðborg Hiroshima í nótt. Klukkan 8:15 að japönskum tíma var mínútu þögn en á þeirri stundu fyrir réttum 63 árum sprakk sprengjan yfir borginni. Talið er að 140 þúsund manns hafi látist strax eða á næstu vikum af völdum sprengingarinnar. Nærri 260 þúsund manns hafa að auki látið lífið af völdum áverka sem þeir hlutu í sprengingunni eða vegna áhrifa geislavirkni.
Þremur dögum síðar, 9. ágúst, var plútoníumsprengju varpað á borgina Nagasaki og þá létu um 80 þúsund manns lífið. Japanar gáfust upp 15. ágúst 1945 og þar með lauk síðari heimsstyrjöldinni.
Talið er að um 244 þúsund manns, sem urði vitni að sprengingunni í Hiroshima, séu enn á lífi og er meðalaldur þeirra 75 ár. Margir þjást af krabbameini og lifrarsjúkdómum, sem raktir eru til geislunar.
Akiba sagði að veita þyrfti þessu fólki aukinn stuðning og þá ekki síst vegna þess andlega álags sem það hefði þurft að þola. Boðaði hann að hafin yrði rannsókn á afleiðingum þess andlega álags, sem sprengingin í Hiroshima hafði. Mun rannsóknin standa í tvö ár.
Yasuo Fukuda, forsætisráðherra Japans, flutti einnig ávarp við athöfnina í nótt og lagði hann einnig áherslu á stefnu Japana um kjarnorkuvopnalausan heim.