Líf færeysku stjórnarinnar hangir á bláþræði

mbl.is/Dagur

Frumvarp færeyska sjávarútvegsráðherrans um fækkun veiðidaga nýtur ekki stuðnings allra stjórnarþingmanna. Stjórnarandstaðan er frumvarpinu andvíg og ef það verður fellt hangir líf stjórnarinnar á bláþræði. Sjómenn og útgerðarmenn eru fjölmennir á áheyrendapöllum í dag.

Undanfarna tvo daga hefur verið margt um manninn í þingstofu Lögþings Færeyja. Þangað eru komnir útgerðar- og sjómenn allra fiskiskipa í Færeyjum nema stærstu togaranna. Það er fréttavefur Landssambands smábátaeigenda sem skýrir frá þessu.

Auðunn Konráðsson, formanns Meginfelags Útróðrarmanna, segir að það hafi verið ætlun Torbjörns Jacobsens, sjávarútvegsráðherra, að leggja frumvarpið fram í gær til fyrstu umræðu.

Það gerðist þó ekki og talið er að nærvera  sjávarútvegsins eigi stóran þátt í því.

Stjórnarliðar ósammála
Frumvarpið umdeilda var loks lagt fram í morgun og var því vísað  til atvinnumálanefndar. Enginn stjórnarþingmaður vildi tjá sig um efni frumvarpsins heldur ræddu þeir lögin um stjórn fiskveiða.

Stjórnarandstaðan vildi hins vegar ólm ræða málið og fagnaði nærveru sjávarútvegsfólks. Sömuleiðis lýsti hún yfir andstöðu sinni við frumvarpið.

Stöðugir fundir eru nú í bakherbergjum Lögþingsins í því skyni að tryggja meirihluta við frumvarpið.

Sjálfstýrisflokkurinn samþykkti í gærkvöldi, að veita þingmönnum flokksins umboð til að vinna að breiðu samstarfi á færeyska lögþinginu. Í þessu felst að flokkurinn mun taka þátt í samningnum við stjórnarflokkana um framgang mála en ekki verða formlegur aðili að heimastjórninni. Hvort þeir styðji frumvarp sjávarútvegsráðherra er ekki ljóst.

Heimastjórnin í Færeyjum missti meirihlutann um síðustu mánaðarmót vegna ósamkomulags um forgangsröðun jarðganga.

Tillaga stjórnarinnar hefur valdið mikilli reiði og óánægju í Færeyjum. Hafa eigendur línuskipa, smábáta og minni togara bundið skip sín að höfn í mótmælaskyni og stefnt áhöfnum sínum til þings.

Í frumvarpinu er lagt til að veiðidögum króka- og trollbáta verði fækkað um 50% og ufsatogara um 20%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert