Hillary Clinton sagði í dag að hún styðji forsetaframboð Barack Obama heilshugar. Margir stuðningsmanna hennar neita hins vegar að sætta sig við það að Demókrataflokkurinn hafi útnefnt Obama.
Clinton spjallaði við stuðningsmenn sína á netinu í dag og þar kom fram að hún sé ekkert að velta því fyrir sér hvort hún muni verða varaforsetaefni Obama.
„Ég mun halda áfram að gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa Obama öldungadeildarþingmanni og demókrötum um land allt til að vinna kosningarnar í nóvember,“ sagði Clinton. Á morgun mun hún stjórna fjöldafundi í Las Vegas til styrktar framboði Obama.
Þegar Clinton var spurð að því hvort hún verði varaforsetaefni Obama svaraði hún: „Ég hef margoft sagt að ég mun gera allt sem Obama öldungadeildarþingmaður mun biðja mig um að gera.“
Hún bætti því við að það væri í verkahring Obama að ákveða hver verði varaforsetaefni hans. Ferlið verði að fá að hafa sinn gang og hún hyggist ekki ætla að ræða það frekar.
Clinton dró framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Obama í júní, en fram að því höfðu þau háð harða kosningarbaráttu þar sem þau skutu föstum skotum hvort að öðru.