Flóttamaður frá Darfúr og meðlimur í hreyfingunni Team Darfur sem gagnrýnir Kína harðlega fyrir stuðning sinn við stjórnvöld í Súdan hefur verið valinn fánaberi Bandaríkjanna við opnunarathöfn ólympíuleikanna á föstudag.
Lopez Lomong er meistari í 1.500 metra hlaupi og fékk bandarískan ríkisborgararétt fyrir 13 mánuðum síðan. Hann er fæddur í Súdan í Darfúr héraði og var sex ára gamall þegar stjórnarsveitir drápu marga í þorpi hans og rændu honum ásamt hópi drengja. Þeir voru síðan þjálfaðir sem hermenn. Honum tókst að flýja til Kenýa þar sem hann dvaldist í flóttamannabúðum í níu ár áður en hann fór til Bandaríkjanna árið 2001.
Hann er núna einn af bestu millilengdarhlaupurum landsins.
Lomong er virkur meðlimur í hreyfingunni Team Darfur sem berst fyrir því að þjóðir heimsins leysi vandamálin sem herja á héraðið. Það hefur meðal annars gagnrýnt Kínverja harðlega fyrir aðild sína að átökunum en kínversk stjórnvöld styðja stjórnvöld í Súdan og hafa látið þeim í té vopn í skiptum fyrir olíu.
Kínverjar fagna því tæpast að Lomong skuli hafa verið fyrir valinu.
Þeir ógiltu í gærmorgun vegabréfáritun skautahlauparans Joey Cheek sem ætlaði að mæta á ólympíuleikana til stuðnings Team Darfur.
Talsmaður kínversku ólympíunefndarinnar sagði að þeir hefðu engar athugasemdir við val Bandaríkjanna á fánabera.
„Þetta er besti dagur lífs míns,“ sagði Lomong þegar tilkynnt var um ákvörðunina. „Það er mér mikill heiður að hafa verið valinn. Ég er hér sem sendiherra þjóðar minnar og mun gera mitt allra besta til að standa mig vel.“
Nærri fjögur hundruð íþróttamenn tilheyra hreyfingunni Team Darfur. Samkvæmt reglum kínverskra yfirvalda mega liðsmenn hennar ekki vera í stuttermabolum merktum samtökunum. Með því að hafa gert liðsmann eins og Lomong að fánabera hefur bandaríska ólympíunefndin þó gert nærveru Team Darfur býsna sýnilega þar sem milljarðar manna koma til með að horfa á setningu leikanna um heim allan.