Kínverjar segja allt tilbúið

Kínverjar lýstu því yfir í dag að allt væri til reiðu fyrir ólympíuleikana, sem settir verða á morgun, þrátt fyrir áhyggjur margra af mikilli loftmengun í Peking og harðri gagnrýni, sem kínversk stjórnvöld hafa sætt vegna stöðu mannréttindamála í landinu.

Opnunarhátíð ólympíuleikanna hefst klukkan 12 að íslenskum tíma og verður sýnt  beint frá setningarathöfninni í Sjónvarpinu. 

„Við höfum undirbúið ólympíuleikana í sjö ár og nú erum við tilbúin... Við erum þess fullviss, að þetta verða vel heppnaðir ólympíuleikar, sagði Sun Weide, talsmaður kínversku ólympíunefndarinnar.

„Auðvitað vonum við að þetta verði frábærir leikar, jafnvel þeir bestu frá upphafi."

Kínverjar vonast til að geta með leikunum sýnt umheiminum fram á hve miklar framfarir hafi orðið í landinu frá því kommúnistar komust til valda árið 1949 eftir blóðugt borgarastríð. 

Mikil mengun var í Peking og var skyggni í nágrenni við ólympíuleikvanginn aðeins um einn og hálfur kílómetri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert