Segir að frelsi muni koma

Bush þegar hann hélt ræðu sína í Taílandi.
Bush þegar hann hélt ræðu sína í Taílandi. Reuter

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í morgun í Taílandi að Bandaríkin væru eindregið á móti því hvernig kommúnistastjórnin í Kína kúgaði þjóðina.

Í þessari tölu Bush sem að öllum líkindum er hin síðasta sem hann flytur í Asíu sagði Bush að Bandaríkin væru málsvarar frjálsra fjölmiðla, frelsis til að safnast saman og réttinda verkalýðsins. Þetta væri ekki vegna þess að þau vildu vera á móti leiðtogum Kína heldur vegna þess að þetta væri eina leiðin til að Kína gæti vaxið eins mikið og möguleiki er á.

Á sama tíma og hann skammaði Kínverja lofaði Bush úrbætur í markaðsmálum og lýsti von um að frelsi myndi ríkja einn daginn í Kína. Lýsir þetta nokkuð þeim línudansi sem forsetinn reynir að dansa þegar þessi öflugi keppinautur Bandaríkjanna á í hlut.

„Breytingar í Kína munu verða á þeirra eigin skilmálum og í samræmi við sögu þeirra og hefðir. En þær munu eiga sér stað,“ sagði hann.

Bush hélt þessa ræðu í Taílandi, þar sem ástandið er viðkvæmt.

Hann lagði einnig áherslu á styrkingu tengsla milli Asíu og Bandaríkjanna. Hann sagði að hver sá sem kæmi á eftir sér í Hvíta húsið myndi erfa bandalag sem væri sterkara nú en nokkru sinni fyrr.

Bush er nú á leiðinni til að vera viðstaddur ólympíuleikana en hann er mikill áhugamaður um íþróttir.

Mikill þrýstingur er á hann úr öllum áttum. Hann vill ekki niðurlægja Kína á þessari mikilvægu stund, þrýst er á hann að koma áréttingum áleiðis til Kínverja frá þeim sem eru óánægðir með kúgun yfirvalda og svo vill hann minna heiminn á að hann hafi verið að þrýsta Kínverjum í frelsisátt í forsetatíð sinni.

Talið er víst að tekið verði eftir skilaboðum Bush í Kína sem hefur þegar skammað hann fyrir að taka á móti kínversku andófsfólki í Hvíta húsinu í aðdraganda leikanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert