Tíbetar mótmæla

Reuters

Um það bil tvö þúsund Tíbetar í útlegð mótmæltu í höfuðborg Nepal í morgun, degi áður en ólympíuleikarnir opna í Peking. Þeir kröfðust trúfrelsis og rannsóknar á aðgerðum Kínverja í heimalandi þeirra.

Mótmælendurnir sögðu að mótmælunum væri ætlað að draga að sér athygli heimsins og hvetja aðrar þjóðir til að þrýsta á Kína.

Mótmælin áttu sér stað í úthverfi Katmandu og voru þátttakendur aðallega tíbeskir munkar, nunnur og skólabörn. Hverfið hýsir marga tíbeska útlaga og búddahof.

Lögreglan í Nepal hrifsaði flögg af mótmælendunum og leyfði þeim ekki að syngja slagorð gegn Kína. Þeim var samt sem áður leyft að safnast saman á friðsaman hátt.

Margir mótmælendanna voru í stuttermabolum sem á stóð: Frelsum Tíbet. Stöðvum drápin í Tíbet.

Nepal hefur verið gagnrýnt fyrir að leyfa ekki mótmæli fyrir framan sendiráð Kína og vegabréfsáritunarskrifstofuna. Lögreglan hefur að auki frá því í mars er mótmæli hófust margsinnis leyst þau upp.

Embættismenn segja að þeir leyfi friðsöm mótmæli en ekki nálægt erlendum sendiráðum eða þau sem beinist gegn vinveittum þjóðum, svo sem Kína.

Þúsundir flóttamanna frá Tíbet búa í Nepal. Þúsundum í viðbót er leyft að fara í gegnum landið á leið sinni til Dharmasala á Indlandi, þar sem andlegur leiðtogi þeirra, Dalai Lama, býr í útlegð.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert