Lögregla í Kellerup á Jótlandi handtók í nótt 55 ára gamlan karlmann, sem ók á 33 ára gamlan fótgangandi mann. Að sögn danskra fjölmiðla höfðu mennirnir áður deilt um farsíma á dansstað í bænum.
Mennirnir höfðu skömmu áður verið á diskóteki í bænum. Þar var farsíma stolið af stúlku og deilur urðu meðal gesta á staðnum um hver væri þjófurinn. Yngri maðurinn yfirgaf staðinn en sá eldri fylgdi honum eftir í bíl og ók á hann á mikilli ferð að sögn sjónarvotta.
Sá sem fyrir bílnum var meiddist á fæti og var fluttur á sjúkrahús. Hinn ók á brott en lögregla fann nokkru síðar bílinn og handtók eigandann í kjölfarið.