Segir Georgíu í stríði

Mikhaíl Saakashvili, forseti Georgíu, lýsti því yfir í dag að stríðsástand ríkti í landinu. Sagðist hann í sjónvarpsávarpi hafa skrifað undir tilskipun þess efnis. Þá sagði hann fullyrðingar Rússa um að 1500 manns hefðu fallið í Suður-Ossetíu í átökum við Georgíuher lygar einar.

Hörð átök hafa verið síðustu daga í Suður-Ossetíu, héraði í Georgíu sem sagði sig úr logum við landið á 10. áratug síðustu aldar. Margir íbúar í héraðinu eru með rússnesk vegabréf og sendu Rússar herlið þangað í gær. Sagði talsmaður Rússlandshers í morgun, að Rússar hefðu náð héraðshöfuðborg Suður-Ossetíu úr höndum Georgíuhers. Þá hefðu orrustuflugvélar gert árás á hafnarborg í Georgíu og ráðist á aðra borg. 

Alþjóðasamfélagið hefur frá því á fimmtudag reynt að stöðva átökin. Öryggisráð sameinuðu þjóðanna hefur komið tvívegis saman. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, er sagður ætla að senda frá sér yfirlýsingu síðar í dag en hann er staddur í Peking. 

Að sögn Hvíta hússins hefur Bush rætt við  Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra, og Stephen Hadley, þjóðaröryggisráðgjafa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert