Kosið um framtíð Moraels

Evo Morales sést hér greiða sitt atkvæði í dag.
Evo Morales sést hér greiða sitt atkvæði í dag. Reuters

Íbúar Bólivíu ganga nú til þjóðaratkvæðis um það hvort Evo Moraels, forseti landsins, og átta ríkisstjórar eigi að láta af embætti eður ei.

Boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu til að styrkja stöðu leiðtoganna, en íbúar landsins hafa skipst í andstæðar fylkingar vegna tilrauna forsetans að gera endurbætur á stjórnarskrá landsins.

Morales hefur gagnrýnt það sem hann kallar forréttindahópa í landinu sem tali um aðskilnað og eru mótfallnir breytingum.

Ríkir íbúar landsins eru lítt hrifnir af hugmyndum forsetans, en hann vill gjörbreyta því hvernig Bólivíu, sem er eitt fátækasta land Suður-Ameríku, sé stjórnað. Hann vill styrkja stöðu kvenna, fátækra og innfæddra íbúa landsins. Þá vill hann skipta jörðum upp á nýtt. 

Margir hafa lýst yfir áhyggjum vegna hugmynda forsetans og hafa kallað eftir því að héruð landsins hljóti aukna sjálfstjórn. Landið er bæði ríkt af gasi og olíu.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að átök hafa brotist út í landinu vegna deilunnar. Í síðustu viku varð forsetinn t.a.m. að aflýsa tveimur ferðum eftir að reiðir mótmælendur lokuðu flugvöllum.

Skoðanakannanir benda til þess að Morales muni halda embættinu, en tveir eða þrír ríkisstjórar eigi að hættu að missa völdin.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert