Medvedev: Aðgerðir Rússa löglegar

Dimítrí Medvedev.
Dimítrí Medvedev. Reuters

Dímítrí Medvedev Rússlandsforseti segir aðgerðir Rússa í Georgíu vera fullkomlega löglegar. Í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér kemur fram að þar séu starfandi rússneskar friðargæslusveitir sem hafi það eitt að markmiði að varðveita frið á svæðinu.

Medvedev segir að nú sem áður hafi Rússar því hlutverki að gegna að vernda íbúa Kákasussvæðisins.

Hann segir georgíska hermenn hafa átt frumkvæði að því að gera árás á rússneska friðargæsluliða og íbúa í Suður-Ossetíu. Þetta brjóti gegn alþjóðalögum og því umboði sem allþjóðasamfélagið hafi veitt Rússum til að halda úti friðargæslusveitum á svæðinu.

Að sögn Medvedevs hafa rússneskir friðargæsluliðar fallið í átökunum. Hann bendir jafnframt á að meirihluti þeirra sem hafa fallið eða særst í Suður-Ossetíu séu rússneskir ríkisborgarar.

„Mér ber skylda sem forseti Rússlands, í samræmi við stjórnarskrána og alríkislög, að vernda líf og virðingu rússneskra borgara hvar sem þeir eru. Það eru þessar aðstæður sem ráða því til hvaða aðgerða við grípum. Við munum ekki láta það viðgangast refsilaust að samborgarar okkar láti lífið. Hinir seku munu hljóta þá refsingu sem þeir eiga skilið,“ segir í yfirlýsingu Rússlandsforseta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka