Rússar gera árás á Gori

Rússneski herinn gerir nú harðar árásir á bæinn Gori í Georgíu og beitir stórskotaliði og flugvélum að sögn talsmanns innanríkisráðuneytis Georgíu.   Rússneskar flugvélar gerðu einnig árás á Gori í gærmorgun en herstöð er í útjaðri bæjarins. Þá lentu sprengjur á íbúðarhverfi og margir létu lífið. 

Talsmaðurinn segir, að Rússar hafi látið sprengjum rigna yfir bæinn í dag og nú hafi borist fréttir af yfirvofandi skriðdrekaárás. Georgíuher hafi svarað skothríðinni. 

Rússar virðast vera staðráðnir í að beygja Georgíumenn á bak aftur þótt þeir eigi á hættu alþjóðlega fordæmingu. Ráðamenn fjölda ríkja hafa haft samband við Rússa og hvatt þá til að hætta hernaði í ljósi þess, að Georgíumenn hafa lýst yfir einhliða vopnahléi. Rússar segjast hins vegar ætla að ganga úr skugga um, að Georgíumenn hafi í raun dregið allt herlið sitt frá Suður-Ossetíu.

Alþjóðlegir sendimenn eru á leið á svæðið til að reyna að miðla málum áður en deilan breiðist út um Kákasussvæðið, þar sem víða ríkir mikil spenna milli  þjóðflokka.

Mikhaíl Saakashvili, forseti Georgíu, sagði í kvöld, að Rússar hefðu gert loftárásir nálægt alþjóðaflugvellinum í Tbilisi í dag. Ein árásin var gerð um hálfri stundu áður en utanríkisráðherrar Frakka og Finnlands komu þangað í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert