Rússar setja hafnbann á Georgíu

Dimitrí Medvedev, forseti Rússlands, og Vladímír Pútín, forsætisráðherra, ræða ástandið …
Dimitrí Medvedev, forseti Rússlands, og Vladímír Pútín, forsætisráðherra, ræða ástandið í Suður-Ossetíu í sumarhúsi forsetans í Gorkí utan við Moskvu. Reuters

Rússnesk herskip hafa lokað höfnum í Georgíu til að koma í veg fyrir að hægt sé að flytja þangað vopn og önnur hergögn. Interfax fréttastofan hafði þetta í dag eftir heimildum úr stjórn rússneska flotans. Hefði herskipið Moskva og fleiri skip úr Svartahafsfloga Rússa verið send að strönd Georgíu.

Utanríkisráðuneyti Úkraínu hótaði í morgun, að koma í veg fyrir að rússnesk herskip, sem taka þátt í aðgerðunum, komi á ný inn í úkraínsku höfnina Sevastopol þar sem Svartahafsfloti Rússa hefur bækistöð.

Stjórnarher Georgíu hörfaði í morgun út úr Tskhinvali, héraðshöfuðborg Suður-Ossetíu en Rússar létu sprengjum rigna yfir Georgíuher. Temur Jakobashvili, ráðherra í stjórn Georgíu, sagði að hersveitirnar yrðu þó áfram í héraðinu. 

Hann sagði að brottflutningurinn muni greiða fyrir því að hjálparsamtök gætu komið hjálpargögnum til borgarinnar og flutt særða á brott.

Harðir bardagar hafa verið í borginni frá því á föstudag þegar Georgíuher gerði árás til að ná aftur Suður-Ossetíu á sitt vald. Rússar svöruðu með því að senda þangað skriðdreka og hersveitir og gera loftárásir á bæi í Georgíu.

Rússneskur hershöfðingi sagði í morgun, að hersveitir hans hefðu rekið Georgíuher út úr Tskhinvali. Annar hershöfðingi sagði hins vegar að harðir bardagar hefðu geisað í nótt og morgun.

Evrópusambandið og Bandaríkin hafa reynt að stöðva átökin með því að senda erindreka til Georgíu. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gærkvöldi til að fjalla um málið en þá varð endanlega ljóst, að ráðið myndi ekki koma sér saman um ályktun vegna ágreinings við Rússa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert