Utanríkisráðherrar Rússlands og Georgíu, áttu í dag viðræður um átökin á Kákasussvæðinu. Aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands skýrði frá þessu en Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, hafði frumkvæði að viðræðunum. Á sama tíma gerðu Rússar loftárás á svæði rétt við alþjóðaflugvöllinn í Tbilisi, höfuðborg Georgíu.
Gernot Erler, aðstoðarutanríkisráðherra, sagði að Steinmeier hefði hringt í ýmsa starfsbræður sína víðs vegar um heim með það að markmiði að fá ráðamenn í Georgíu og Rússlandi til að ræðast við.
Erler sagði að þetta hefði borið árangur og Eka Tkeshelashvili, utanríkisráðherra Georgíu og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefðu nú átt viðræður.