Rússar biðja um fund með NATO

Sendiherra Rússlands hjá Atlantshafsbandalaginu, NATO, segir að Rússar hafi óskað eftir fundi með háttsettum leiðtogum bandalagsins til að útskýra hvers vegna barist sé í Georgíu.  

Dimitrí Rogozin, sendiherra, segir að stjórnvöld í Moskvu vilji koma sínum sjónarmiðum á framfæri við NATO áður en bandalagið tekur ákvarðanir í málinu.

Rogozin segir að Rússar hafi óskað eftir aukafundi í Rússlands-NATO ráðinu. Á morgun ætla sendiherrar NATO að hitta   Ekaterina Tkeshelashvili, utanríkisráðherra Georgíu, að  máli.

Áróðursstríðið milli Rússa og Georgíumanna er ekki síður hart en vopnuðu átökin. Rogozin sagði m.a., að Rússar gætu ekki átt samskipti við Mikhaíl Saakashvili, forseta Georgíu, sem nú væri orðinn stríðsglæpamaður. Sagði sendiherrann, að refsa yrði forsetanum fyrir að brjóta alþjóðalög.

Saakashvili sagði hins vegar í sjónvarpsávarpi í dag, að Rússar stefndu að því að leggja alla Georgíu undir sig.

Rússar héldu áfram hernaðaraðgerðum í Georgíu í dag. Að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins fóru rússneskar hersveitir til borgarinnar Senaki til að hindra, að stjórnarher Georgíu gæti endurskipulagt sig þar og skotið á Suður-Ossetíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert