Aðgerðum gegn Georgíu hætt

Dimitrí Medvedev tekur á móti varnarmálafulltrúum og Vladímír Pútín, forsætisráðherra, …
Dimitrí Medvedev tekur á móti varnarmálafulltrúum og Vladímír Pútín, forsætisráðherra, í Kreml. Reuters

Dimitrí Medvedev, forseti Rússlands, sagði í Moskvu í dag, að aðgerðum gegn Georgíu sé að ljúka. Að sögn rússneskra fréttastofa sagðist Medvedev á fundi með embættismönnum varnarmálaráðuneytisins hafa ákveðið að binda enda á hernaðaraðgerðirnar.

„Ég hef tekið ákvörðun um að ljúka aðgerðunum sem miða að því að þvinga stjórnvöldum í Georgíu til að gera friðarsamkomulag," hafa fréttastofur eftir forsetanum. 

Rússneskur herstjóri staðfesti, að herinn hefði í dag fengið skipun um að hætta sókninni inn í Georgíu. Hann sagði hins vegar að það þýddi ekki, að öllum aðgerðum hefði verið hætt. 

„Markmið aðgerðanna hafa náðst... Við höfum tryggt á ný öryggi friðargæsluliða okkar og almennra borgara," sagði Medvedev á fundi með Anatolí Serdjukov, varnarmálaráðherra Rússlands, og Nikolai Makarov, yfirmanni herráðsins.

„Árásaraðilanum hefur verið refsað og hann hefur þolað umtalsvert tjón," bætti hann við.  

Forsetinn sagði, að ef Georgíumenn réðust á ný á Suður-Ossetíu yrði slíku mætt af hörku.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, kom í dag til Moskvu til að freista þess að binda enda á átökin í Georgíu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert