„Það væri best ef hann færi," sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, á blaðamannafundi í Moskvu í morgun og átti við Mikhaíl Saakashvili, forseta Georgíu. Lavrov bar á móti því að Rússar væru að reyna að koma Saakashvili frá völdum en sagði ljóst að samskipti landanna myndu batna ef hann færi.
Engin lausn er í sjónmáli á deilum Rússa og Georgíumanna. Mikil sprenging heyrðist í Tbilisi, höfuðborg Georgíu, í morgun en Georgíumenn segja að Rússar hafi gert sprengjuárásir í nágrenni borgarinnar. Þá gerðu Rússar loftárás á miðborg Gori, sem er skammt frá Suður-Ossetíu. Að sögn sjónvarps Georgíu kviknaði í skólabyggingu.
Lavrov sagði, að eina lausnin væri að Georgíuher færi út úr Suður-Ossetíu og gert yrði samkomulag þar sem Georgíumenn féllust á að beita ekki valdi í héraðinu.
Eka Tkeshelashvili, utanríkisráðherra Georgíu, aflýsti í morgun fundi sem hún ætlaði að eiga með sendiherrum NATO-ríkjanna í Brussel í dag. Ástæðan er sögð vera versnandi ástand í heimalandi hennar.