BP lokar olíuleiðslu í varúðarskyni

Fólk yfirgefur borgina Gori í Georgíu.
Fólk yfirgefur borgina Gori í Georgíu. Reuters

Breska olíufélagið BP tilkynnti í hádeginu, að lokað hefði verið fyrir olíuleiðslu  milli Baku í Aserbaídsjan og Supsa í Georgíu í öryggisskyni vegna átakanna í landinu. Georgíustjórn fullyrðir, að Rússar hafi í dag haldið áfram loftárásum á bæi í landinu þrátt fyrir fyrirskipun Rússlandsforseta um að aðgerðum verði hætt.

Um 90 þúsund tunnur af olíu renna um leiðsluna, sem lokað var í dag. BP segir að leiðslan sé óskemmd. Önnur olíuleiðsla, sem BP rekur í Georgíu, og liggur á milli Baku og Ceyhan í Tyrklandi um Tbilisi, höfuðborg Georgíu, lokaðist í síðustu viku vegna elds sem kviknaði í leiðslunni í Tyrklandi.

Georgíustjórn segir í yfirlýsingu, að Rússar hafi ráðist á tvo bæi í Georgíu utan Suður-Ossetíu nú undir hádegið. 

Ýmsir hafa orðið til að fagna yfirlýsingu Dimitrís Medvedevs, forseta Rússlands, en yfirlýsingarnar eru þó gefnar með gát. Zalmay Khalilzad, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að þetta séu jákvæðari fréttir en borist hafi úr Kreml í gær.

Mikhaíl Saakashvili, forseti Georgíu, ávarpaði útifund í miðborg Tbilisi, höfuðborg landsins, í dag. Talið er að um 50 þúsund manns hafi komið saman í miðborginni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert