Fleiri breskir ferðamenn handteknir

Bretum þykir ölsopinn góður.
Bretum þykir ölsopinn góður. Reuters

Milljónir ferðamanna ferðast til evrópskra sólarstranda á ári hverju til að njóta njóta blíðunnar og hafa gaman. Þetta þekkja Íslendingar vel ekki síður en Bretar, en þarlend stjórnvöld segja að málum fari fjölgandi þar sem breskir ferðamenn annað hvort slasist eða eru handteknir vegna fyllerísláta.

Á Spáni hefur málum fjölgað þar sem breskir ríkisborgarar eru handteknir. Aukningin nemur 33% á milli apríl 2006 og mars 2007, og alls voru 2032 Bretar teknir höndum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu breska utanríkisráðuneytisins, og þar segir jafnframt að slíkum málum hafi einnig fjölgað á Kýpur. Þar voru nýlega tveir Bretar dæmdir í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa verið valdir að bílslysi sem varð einum unglingi að bana og slasaði annan.

Þá var tvítug bresk stúlka ákærð fyrir barnsmorð á Grikklandi. Stúlkan ól barn á hótelherbergi sem fannst síðar látið.

Embættismenn gagnrýna drykkjumenningu Breta, sem eru þekktir fyrir að fara á fyllerístúra. Í sögulegu samhengi hefur breska kráarmenningin gengið út á að fá sér öl og ekkert annað fremur en að fá sér eitthvað í gogginn með ölinu, líkt og víða er vaninn í öðrum Evrópuríkjum.

„Við höfum áhyggjur af því að áfengi eigi þátt í mörgum þessara tilfella,“ segir Meg Munn, hjá utanríkisráðuneytinu, við breska ríkisútvarpið.

Fram kemur að Bretland sé ein mesta drykkjuþjóð Evrópu. Á 14 árum, eða á milli 1991 og 2005, varð um 100% aukning á dauðföllum sem tengjast áfengisneyslu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert