Hitlersæskubúðir rannsakaðar

Þýska lögreglan rannsakar nú ungliðahreyfingu eftir að hafa ráðist til atlögu gegn sumarbúðum í norðausturhluta landsins þar sem ung börn klædd einkennisbúningum virðast hafa fengið kennslu í öfgasinnuðum fræðum í ætt við það sem kennt var í Hitlersæskunni.

AFP fréttastofan skýrir frá því að 39 börn hafi verið send heim úr búðunum og hald lagt meðal annars á viskustykki og söngbækur merkt með hakakrossi.

Búðirnar voru reknar af hóp sem nefnist Heimattreuen Deutchend Jugend sem gæti útlagst sem þýskur ungdómur sem er trúr fósturlandinu. Hópur þessi er talinn vera arftaki Wiking-Jugend sem var bannaður 1994.

Frankfurter Rundschau hafði eftir sérfræðingum að slíkum búðum færi fjölgandi og að útilegur og samkomur ættu sér stað á tveggja til þriggja vikna fresti.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert