Hollenskur fréttamaður lést

Hollenskur fréttamaður lést og samstarfsmaður hans særðist í árásum rússneska hersins á georgísku borgina Gori í gær. Fréttamaðurinn starfaði fyrir RTL-2 fréttastofuna og hefur hollenski sendiherrann Onno Van Elderenbosch staðfest fréttina en segist ekki geta gefið upp nafn mannsins að svo stöddu.

Hollenski fréttamaðurinn er þriðji blaðamaðurinn sem hefur látist í bardögum Rússa og Georgíumanna undanfarna viku.

Fæðingarborg Jósefs Stalíns

Rússar vörpuðu sprengjum á borgina Gori sem er skammt frá Suður Ossetíu en þá höfðu flestir georgískir hermenn og íbúar borgarinnar flúið hana.

Gori er að mörgu leyti táknræn borg og tengist sögu Rússlands sterkum böndum því þann 21. desember 1879 fæddist Jósef Stalín þar. 

Samkvæmt AP fréttastofunni mun hollenskur frétta- og kvikmyndatökumaður hafa verið að störfum í fjölmiðlamiðstöð sem sett hafði verið upp á efstu hæð þriggja hæða húss sem hýsti útvarps- og sjónvarpsstöð í borginni.

Ekki er ljóst hvort húsið varð fyrir sprengju en rússneski herinn mun hafa beint sprengjum sínum að mestu leyti að opinberum byggingum en fréttamiðstöðin mun vera um 200 metra frá helstu stjórnsýslumiðstöð  Gori.


Særður blaðamaður borinn í miðbæ Gori í morgun.
Særður blaðamaður borinn í miðbæ Gori í morgun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka