Búið er að birta opinberlega myndbandsupptöku sem sýnir þrjá lögreglumenn í Flórída slá og sparka í handjárnaðan mann fyrir utan lyfjaverslun sem hann hafði rænt. Atvikið var tekið upp á myndavél sem er í einum lögreglubílnum.
Ræninginn beitti piparúða á lögreglumennina er þeir reyndu að handtaka hann. Þegar maðurinn lá handjárnaður í götunni létu lögreglumennirnir spörkin og höggin dynja á manninum.
Fram kemur í skýrslu lögreglumannanna að ræninginn hafi reynt að bíta einn þeirra og hrækja framan í annan. Þegar einn lögreglumannanna hugðist svo flytja ræningjann inn í lögreglubifreið reyndi maðurinn að rífa sig lausan. Við það trylltist lögreglumaðurinn og sló manninn margítrekað í andlitið.
Lögreglustjórinn í West Palms segir viðbrögð lögreglumannanna vera álíka slæm og hegðun ræningjans, en atvikið átti sér stað í maí sl.
Lögreglumaðurinn sem sló ræningjann í andlitið er hættur störfum. Hinir eru í leyfi frá störfum.