Helsti ráðgjafi Hillary Clinton í baráttunni fyrir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins ráðlagði henni að sá efasemdum um tryggð keppinautarins, Baracks Obamas, við bandarísk gildi og menningu.
Á minnisblaði til Clintons í mars sagði ráðgjafinn, Mark Penn: „Það er erfitt að trúa því, að Bandaríkjamenn myndu nú á stríðstímum kjósa sér forseta sem er ekki í grundvallaratriðum bandarískur í hugsun og gildismati.“
Clinton fór ekki að tillögum Penns, en greint er frá þeim í grein í nýjasta hefti tímaritsins Atlantic Monthly. Þar segir að helstu ástæður þess að kosningabarátta Clintons skilaði ekki tilætluðum árangri hafi verið nokkrar, allt frá lélegri fjármálastjórn til harkalegra deilna helstu ráðgjafa. Clinton sjálf hafi ekki gert neitt til að setja niður þessar innanbúðardeilur.