Rússar og Georgíumenn fallast á friðarsamkomualg

Nicolas Sarkozy og Mikhaíl Saakashvili ræðast við í kvöld.
Nicolas Sarkozy og Mikhaíl Saakashvili ræðast við í kvöld. Reuters

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sagði í kvöld eftir viðræður við Mikhaíl Saakashvili, forseta Georgíu, að bæði Rússar og Georgíumenn hefðu fallist á samkomulag, sem miðaði að því að koma á friði í héröðunum Suður-Ossetíu og Abkhasíu í Georgíu.

„Það er texti. Hann var samþykktur í Moskvu, hann hefur verið samþykktur hér í Georgíu. Ég hef fengið samþykki allra forvígismanna," sagði Sarkozy á blaðamannafundi Í Tbilisi, höfuðborg Georgíu sem hann hélt ásamt Saakashvili.

Saakashvili sagði, að gera ætti friðarsamkomulag en Georgía myndi aldrei fallast á, að landamæri ríkisins yrðu dregin í efa í slíku samkomulagi. Hann sagði, að tillögum Frakka að friðarsamkomulagi yrðu að fylgja nánari lögfræðileg útfærsla svo ekkert færi þar á milli mála.

Í tillögum Frakka að friðarsamkomulagi felst eftirfarandi:

  1. Alþjóðlegar viðræður fara fram um stöðu Suður-Ossetíu og Abkhasíu, sem hafa sagt sig úr lögum við Georgíu. Á þetta vilja Georgíumenn ekki fallast.
  2. Allir deiluaðilar verða að fordæma valdbeitingu.
  3. Hernaðaraðgerðum verðu að ljúka með formlegum hætti.
  4. Hjálparsamtök verða að fá óhindraðan aðgang að átakasvæðunum.
  5. Hersveitir Georgíu verða að snúa aftur til varanlegra bækistöðva sinna.
  6. Rússneskar hersveitir snúa aftur til bækistöðva sinna.
Saakashvili ávarpar mannfjöldann í miðborg Tbilisi en Lech Kaczynski, forseti …
Saakashvili ávarpar mannfjöldann í miðborg Tbilisi en Lech Kaczynski, forseti Póllands, og Viktor Jútsjenkó, forseti Úkraínu, fylgjast með.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert