Rússar hafa samþykkt áætlun sem miðar að því að binda enda á átökin í Georgíu. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti reynir að miðla málum í deilunni, en hann er nú staddur í Tblisi, höfuðborg Georgíu, þar sem hann reynir að fá Georgíumenn til að samþykkja friðaráætlunina.
Samkvæmt áætluninni skulu báðir aðilar samþykkja að beita ekki hervaldi og þá skulu allir hermenn snúa aftur til þeirra stöðva þar sem þeir voru áður en átökin brutust út, að því er segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Rússar greindu frá því fyrr í dag að þeir séu hættir heraðgerðum sínum í Georgíu. Sjónvarvottar segjast hafa séð rússneska hermenn halda aftur heim.
Fréttaskýrendur telja hins vegar að það sé enn talsvert í það þar til bæði ríkin sættast alveg á frið, en rússnesk og georgísk stjórnvöld hafa skotið föstum skotum hvort að öðru.
Átökin brutust út sl. fimmtudag þegar Georgíumenn hófu að gera sprengjuárás í Suður-Ossetíu. Héraðið, sem er vanalega sagt tilheyra Georgíu, sagði sig úr lögum við stjórnvöld, og þar er meirihluti íbúanna með rússnesk vegabréf.
Rússar svöruðu árásum Georgíumanna af hörku og sendu inn herlið í Suður-Ossetíu og Abkhazia, sem er annað hérað sem hefur sagt sig úr lögum við Georgíu. Þá gerðu Rússar sprengjurásir á aðra bæi í Georgíu.
Talið er að um 100.000 manns hafi misst heimili sín í átökunum.