Kínverjar verja ákvörðun

Lin til vinstri og Yang til hægri.
Lin til vinstri og Yang til hægri. The telegraph

Skipuleggjendur ólympíuleikanna vörðu í morgun þá ákvörðun að falsa mikilvæg atriði í opnunarathöfn leikanna síðastliðinn föstudag. Yfirvöld hafa lokað fyrir umræðu um málið í kínverskum fjölmiðlum.

Fram hefur komið, að hin níu ára gamla Lin Miaoke söng ekki í raun lagið Óður til ættjarðarinnar við athöfnina heldur var það hin sjö ára gamla Yan  Peiyi sem var baksviðs. Hún þótt ekki nógu falleg til að vera í aðalhlutverki í sjónvarpsútsendingunni.  Ákvörðunin um að Lin birtist í stað Yan var tekin af meðlim í Kommúnistaflokknum.

Wang Wei, varaforseti kínversku ólympíunefndarinnar sagði að aðstandendur athafnarinnar hefðu tekið listræna ákvörðun og að hans skoðun væri sú að þetta hefði ekki verið siðlaust.

„Ég sé ekkert að þessu,“sagði hann.

Gilbert Felli, í alþjóðlegu ólympíunefndinni, varði sömuleiðis ákvörðunina og sagði þetta líkt því að íþróttamaður tæki þátt í undirbúningskeppni leikanna en kæmist ekki á leikana sjálfa.

„Maður verður að vera viss um að bæði flytjandinn og söngurinn séu af bestu gerð,“ sagði hann fréttamönnum.

Aðspurður um hvernig foreldrar Yang ættu að útskýra ákvörðunina fyrir dóttur sinni svaraði hann: Svona er þetta í íþróttum, svona er lífið.

Lin vakti mikla athygli fyrir söngatriði sitt og myndir af henni birtust um allan heim. Hún var lofuð sem söngstjarna framtíðarinnar.

Lofsyrðin hættu að birtast eftir að tónlistarstjórnandi sýningarinnar lét hafa eftir sér að hún hefði verið valin útlitsins vegna og hefði ekki sungið eina einustu nótu. Viðtalið þar sem þetta kom fram birtist í skamma stund á vefnum Sina.com áður en það var tekið út.

Ekkert birtist um málið í fjölmiðlum í Kína í dag og ekkert birtist á netinu heldur. Yfirvöld í Kína eru þekkt fyrir að stjórna bæði fjölmiðlum og netinu með harðri hendi og ströng ritskoðun er daglegt brauð.

Einnig hefur komið í ljós að hluti flugeldasýningarinnar var tölvugerður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert