Rússar halda í átt að Tbilisi

Flóttamannabúðir hafa verið reistar í Norður-Ossetíu fyrir flóttamenn frá Suður-Ossetíu.
Flóttamannabúðir hafa verið reistar í Norður-Ossetíu fyrir flóttamenn frá Suður-Ossetíu. Reuters

Skriðdrekar og herbílar Rússa fóru í dag frá georgísku borginni Gori, sem er skammt frá Suður-Ossetíu, og stefndu inn í Georgíu í átt að höfuðborginni Tbilisi. Forseti Georgíu sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN, að Rússar væru að reyna að umkringja höfuðborgina.

AP fréttastofan segir, að þetta sé brot á vopnahléssamkomulagi, sem Rússar og Georgíumenn féllust á í gærkvöldi eftir milligöngu Frakka.

AP segir, að  nokkrir tugir rússneskra herbíla stefni nú út úr Gori í suðurátt, lengra inn í Georgíu.

Samkvæmt vopnahléssamkomulaginu eiga Rússar að flytja her sinn til þeirra staða þar sem hann var áður en átökin í Suður-Ossetíu brutust út í síðustu viku.

AP fréttastofan segir einnig, að nokkrir tugir stríðsmanna frá Abkhasíu hafi farið inn í Georgíu í dag og sett  fána héraðsins á brú yfir Inguriá. Sögðust þeir vera að helga sér land, sem tilheyrði Abkhasíu af sögulegum ástæðum og að hersveitir Georgíu hefðu yfirgefið svæðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert