Þrjár konur, sem störfuðu fyrir bandaríska hjálparstofnun, voru skotnar til bana í Lowgar héraði í Afganistan í dag. Konurnar þrjár voru frá Bandaríkjunum, Kanada og Írlandi. Bílstjóri þeirra var einnig skotinn til bana og annar afganskur maður særðist í skotárásinni.
Að sögn lögreglu störfuðu konurnar fyrir bandarísku hjálparsamtökin International Rescue Committee.
Tveir óþekktir menn hófu skotárás á tvo bíla sem voru á leið frá héraðinu til Kabúl. Hjálparstofnanir og starfsfólk þeirra hafa í auknum mæli verið skotmark árásarmanna, að sögn lögreglu.