Hvítir ekki meirihluti Bandaríkjamanna 2042

Hvítir menn verða ekki lengur í meirihluta í Bandaríkjunum árið 2042, samkvæmt nýrri spá yfirvalda þar í landi. Er þetta átta árum fyrr en áætlað var í spá fyrir fjórum árum. Fjölbreytni hefur aukist meðal bandarísku þjóðarinnar undanfarna áratugi, en aukinn fjöldi innflytjenda og há fæðingartíðni meðal minnhlutahópa hefur hraðað þessum breytingum.

Þjóðskrá Bandaríkjanna birtir í dag mannfjöldaspá fram til 2050, og er hún byggð á fæðinga- og dánartíðni, og fjölda innflytjenda.

Bandaríkjamenn telja nú hátt í 305 milljónir. Er því spáð, að tala þeirra fari í 400 milljónir 2039 og 439 milljónir 2050. Hvítir sem ekki eru af rómönskum uppruna er nú um tveir þriðju þjóðarinnar, en aðeins 55% af þeim sem eru yngri en fimm ára.

Árið 2050 verða hvítir 46% Bandaríkjamanna og svartir 15%, sem er tiltölulega lítil aukning frá því sem nú er. Fólk af rómönskum uppruna er nú um 15% þjóðarinnar, en verða 30% árið 2050, samkvæmt spánni sem birt er í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert