Alþjóðlega ólympíunefndin ætti að grípa til aðgerða og koma þegar í stað á tilkynningarkerfi fyrir hindranir á frelsi fjölmiðlafólks í Kína, segir Human Rights Watch í dag. Samtökin hafa, ásamt fjölmörgum öðrum, skráð fjölda atvika þar sem kínversk yfirvöld brjóta á frelsi fjölmiðlafólks og svíkja þar með loforð sín um fjölmiðlafrelsi á ólympíuleikunum.
Talskona alþjóða ólympíunefndarinnar, IOC, rauf í gær mánaðalanga þögn nefndarinnar um málið og sagði að nefndin væri á móti öllum tilraunum til að hindra blaðamann í starfi sínu þegar svo virtist sem hann færi að öllum reglum.
Undanfarið ár hefur nefndin fengið í hendur fjölda tilkynninga um svona brot af hálfu kínverskra yfirvalda, þar með talin atvik þar sem ráðist er líkamlega á blaðamenn. Nefndin hefur þó aldrei talað opinberlega um málið eða skorað á kínversk yfirvöld.
„Við tökum yfirlýsingu IOC fagnandi en hún mun ekki hafa nein áhrif ef ekkert er gert í málinu,“ segir Sophie Richardson, umsjónarmaður Asíumála hjá Human Rights Watch.
Samtökin hafa á skrá nánast dagleg brot á
loforðum Kínverja um fjölmiðlafrelsi. Tímabundin kínversk lög sem heimila
erlendum blaðamönnum að tala við hvern sem er sem hefur áður samþykkt viðtal, á
tímabilinu 1. janúar 2007 til 17. október 2008, virðast ekki hafa mikið gildi.
Síðan að leikarnir byrjuðu þann 8. ágúst hafa erlendir blaðamenn látið Human
Rights Watch vita að eftirlit og ofsóknir af hálfu öryggisvarða hafi
margfaldast. Meðal þessara öryggisvarða eru óeinkennisklæddir lögreglumenn, sjálfboðaliðar
á leikunum og borgarar í hverfum nálægt leikvöngunum en blaðamenn segja að þeir
reyni að ógni sér og viðmælendum sínum.
Erlendur blaðamaður sagði samtökunum til dæmis frá því 7. ágúst að þann dag hafi hann verið í einum af skemmtigörðum Peking og hafi þá verið eltur af að minnsta kosti fimm manns sem hafi tekið af honum myndir og kvikmyndir. Honum hafi liðið eins og skotmarki.
Samtökin krefjast þess meðal annars að ólympínefndin opni síma þar sem erlendir blaðamenn geta tilkynnt um brot, að nefndin krefjist þess að Kínverjar rannsaki öll brot á blaðamönnum og komi í veg fyrir að þau endurtaki sig, að yfirvöld rannsaki hvarf heimildarmanna blaðamanna og að kínversk yfirvöld lýsi opinberlega yfir niðurstöðum rannsóknanna áður en ólympíuleikar fatlaðra verða haldnir í september.
Undanfarna tíu daga hafa samtökin skráð fjölda tilvika þar sem blaðamenn frá til dæmis AP, The Times og ITN hafa verið barðir og fangelsaðir, myndum eytt af myndavélum, miðað hefur verið á þá byssum og þeim hótað.