„Þetta er skref í rétta átt," segir George W. Bush, Bandaríkjaforseti, um undirritun Rússa á vopnahlésamkomulagi við Georgíu. Talsmaður rússneskra stjórnvalda greindi frá því í dag að Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, hafi undirritað sáttmálann, degi eftir að Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, skrifaði undir.
Bush segir að Rússar verði að virða sáttmálann og draga herlið sín tilbaka. Bush lagði áherslu á að Abkhazia og Suður-Ossetiu héruð, þar sem aðskilnaðarsinnar hafa tekið völdin og njóta stuðnings Rússa, verði áfram hluti af Georgíu. „Um það leikur enginn vafi," sagði Bush skömmu eftir fund með Condoleezu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var viðstödd þegar forseti Georgíu undirritaði vopnahlésamkomulagið.
Átök hafa geisað í Georgíu undanfarnar tvær vikur og hundruð manna særst og látið lífið.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, fullyrti að herlið Rússa yrðu dregin tilbaka en gaf ekki upp nákvæmlega hversu langan tíma það myndi taka þar sem huga þurfi að ákveðnum öryggisatriðum áður en afturköllun hefst.