Ríkisstjórn Ísraels samþykkti í dag að sleppa 200 Palestínumönnum, sem eru fangelsaðir í Ísrael.
Mark Regev, talsmaður Ehuds Olmerts forsætisráðherra, segir að þetta sé gert til þess að sýna velvilja í garð Mahmouds Abbas, forseta Palestínu. Ennfremur sé verið að styrkja framvindu friðarviðræðna á milli þjóðanna, sem hafa gengið hægt.
Á meðal þeirra sem sleppt verður eru tveir menn sem voru settir í fangelsi á áttunda áratugnum fyrir árásir gegn Ísrael. Ákvörðun þessi er umdeild þar sem mönnum sem hafa framið alvarlega glæpi verður sleppt.
Palestínumönnunum verður sleppt þann 25. ágúst, á sama tíma og Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsækir Ísrael. „Við vonum að lausn fanganna muni styrkja viðræðurnar," sagði Regev.