Fjarlægðu fimm kílóa illkynja æxli

Jórdanskir læknar fjarlægðu í dag fimm kílóa illkynja æxli úr nýra tveggja ára gamals drengs frá Írak. 

„Eftir flókna fimm klukkustunda aðgerð, náðum við að fjarlægja þetta sjaldgæfa æxli, sem var 40% af líkamsþyngd barnsins," segir Khalil Ghandur, læknir á Al Hussein krabbameinssjúkrahúsi í Amman, höfuðborg Jórdaníu.

Annar læknir á sjúkrahúsinu segir að drengurinn eigi mjög góða möguleika á að ná fullum bata.

Að sögn ríkisfréttastofunnar Petra fékk drengurinn krabbamein þegar hann var átta mánaða gamall.  Hann hafði gengist undir lyfjameðferð um skeið áður en læknar í Írak hættu henni þar sem hún bar ekki nógu mikinn árangur.

Sameinuðu þjóðirnar og sérfræðingar hafa varað við því að mengun sé helsta ástæðan fyrir fjölgandi tilfellum krabbameins í Írak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert