Brottför Rússa óljós

Rússneskir hermenn í Gori.
Rússneskir hermenn í Gori. Reuters

Óljós er hvort Rússar séu að framfylgja skilmálum vopnasamkomulags. Háttsettur rússneskur herforingi segir að byrjað sé að flytja liðsaflann í burt frá Georgíu. Fregnir berast þó af því að einungis sé verið að flytja hann til innan Georgíu.

Háttsettur georgískur embættismaður segir að þótt verið sé að keyra tólf brynvörð farartæki burtu frá borginni Kashuri hafi sex þeirra verið stefnt að Borjomi og sex að Sachkhere. Það er Sky sem skýrir frá þessu.

„Georgískir landamæralögregla stöðvaði bílalest með sex rússneskum brynvörðum faratækjum í útjaðri  Borjomi borgar,” segir talsmaður innanríkisráðuneytisins, Shota Utiashvili.

„Í kjölfarið sneru faratækin við og héldu aftur til Kashuri.  Það sama gerðist við Sachkere og eru þau faratæki sömuleiðis á leið aftur til Kashuri.”

Fréttamaður Sky við Gori segir að engin merki sjáist um það að Rússar séu á förum frá borginni.

Rússneska fréttastofan Novisti skýrði frá því að lítill hópur rússneskra hermanna væri á förum frá Suður Ossetíu til Rússlands.

Bandaríkin hafa hvatt Rússa til að byrja flutning hermanna frá Georgíu.

„Ég vona að hann hafi í hyggju að efna loforð sitt núna,” segir Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um rússneska forsetann, Dmitrí Medvedev, í viðtali við NBC. Medvedev sagði fyrir nokkrum dögum að Rússar myndu byrja að flytja fólk sitt í burtu en það hefur ekki gerst enn.

„Orð forseta Rússlands þurfa að vera studd með aðgerðum af hálfu liðsafla hans annars fer fólk að efast um hvort hægt sé að treysta Rússlandi.”

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates, sagði að Washington þyrfti að halda áfram að þrýsta á Rússa að yfirgefa Georgíu.

Hann bætti við að brottför Rússa af svæðinu væri að hluta til háð því hvenær Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gæti sent eftirlitsmenn á svæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert