Munu ekki líða nýtt járntjald

Öldruð hjón á flótta undan herskáum Suður-Ossetum, sem kveiktu í …
Öldruð hjón á flótta undan herskáum Suður-Ossetum, sem kveiktu í húsum í Georgísku þorpi í dag. Reuters

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í kvöld að Rússar væru að leika afar hættulegan leik við vesturveldin. Sagði Rice að NATO muni ekki sitja aðgerðalaust og leyfa Rússum að brjóta Georgíu á bak aftur, grafa undan stöðugleika í Evrópu og reisa nýtt járntjald í álfunni.

Rice er á leið til Brussel á fund utanríkisráðherra NATO á morgun þar sem ástandið í Georgíu verður til umræðu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, mun sitja fundinn.

Rice sagði við blaðamenn í flugvél á leið til Brussel í kvöld, að NATO muni refsa Rússum fyrir innrásina í Georgíu og koma í veg fyrir þær fyrirætlanir þeirra, að grafa undan lýðræði í Georgíu og laska innviði landsins og reyna að veikja það.

Rice sagði, að Rússum yrði ekki leyft að draga nýja markalínu um þau lönd, sem ekki eru aðilar að stofnunum sem ná yfir Atlantshafið.  Vísaði hún með því til Úkraínu og Georgíu, sem hafa ekki gengið í NATO eða Evrópusambandið en hafa lýst vilja til þess.

Þá sagði hún að Rússar væri með hernaðaraðgerðunum í Georgíu og víðar og flugi herflugvéla allt að ströndum Alaska, að reyna að sýna mátt sinn og megin en það gæti komið þeim í koll. Sagði Rice að þetta væri afar hættulegur leikur sem Rússar ættu að endurskoða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert