Ungt fólk í Skandínavíu á erfitt með að skilja hvert annað. Danski menntamálaráðherrann, Bertel Haarder telur að botninum sé náð er ungmenni í Norðurlandaráði æskunnar tala saman á ensku.
Samkvæmt Danmarks Radio hótar Haarder að skrúfa fyrir fjármagnið til hins norræna samstarfs ungmenna ef þau tali ekki saman á norrænum tungumálum.
Lisbeth Sejer Gøtzsche forseti Norðurlandaráðs æskunnar segist vel skilja afstöðu menntamálaráðherrans en bendir jafnframt á að hann geti sjálfum sér um kennt þar sem kennslu í öðrum norðurlandamálum sé ekki vel sinnt í dönskum skólum.