Elsti maður heims látinn

Indverskur maður, sem er sagður hafa verið elsti maður í heimi, er látinn. Skv. opinberum skjölum fæddist Habib Miyan 20. maí árið 1879. Hann var því 129 ára þegar hann lést. Miyan hélt því hins vegar fram að hann væri 138 ára.

Fram kemur á fréttavef BBC að Miyan hafi fyrst vakið athygli fyrir fimm árum þegar hann heimsótti Mekka í Sádi-Arabíu. Það hafði verið hans heitasta ósk að fara í pílagrímsferð til Mekka og heimsækja moskuna miklu.

Kaupsýslumaður, sem er búsettur í Bretlandi, greiddi fyrir ferð Miyan til Mekka eftir að hafa lesið um Miyan á fréttavef BBC. Ferðin kostaði 5700 dali, eða tæpa hálfa milljón kr.

Miyan bjó í múslímahverfi í Jaipur ásamt 32 ættingjum. Hann missti sjónina fyrir hálfri öld og var með skerta hreyfigetu. Þá hafði hann þegið lífeyri síðan 1938.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert