Fyrirburi sem fannst á lífi í líkhúsi sjúkrahúss í Ísrael í gær er látinn. Að sögn lækna lifði litla stúlkan, sem fæddist á 23 viku meðgöngu, í sex klukkustundir í kæli líkhússins. Lifði hún í nokkrar klukkustundir eftir að hún fannst en ekki tókst að bjarga lífi hennar þrátt fyrir tilraunir til þess. Aðstoðarforstjóri sjúkrahússins, segir að dánarorsök liggi ekki fyrir og verði ekki ljós fyrr en barnið hefur verið krufið.
Móðir stúlkunnar var flutt í snarhasti á spítala í Ísrael í gærmorgun. Hún var þá með mikla verki og blæðingar. Læknar úrskurðuðu að stúlkubarnið væri andvana.
Framkvæmdastjóri spítalans sagði fjölmiðlum í gær að fjölskyldan hefði byrjað að undirbúa útför barnsins. Þegar farið var að sækja líkið kom hins vegar í ljós að barnið andaði og hægt var að finna veikan hjartslátt. Barnið sem vó aðeins 600 grömm var flutt þegar í stað á vökudeild.