Hitabeltisstormurinn Fay hefur eflst á leið sinni frá Karíbahafinu að Flórída, en tugir hafa látist af völdum óveðursins á eyjum Karíbahafsins. Bandaríska veðurstofan segir að vindhraði Fay mælist nú vera 26 metrar á sekúndu og varar við því að stormurinn gæti eflst frekar.
Kl. 6 að íslenskum tíma var miðja Fay um 70 km suður af Naples sem er á Flórída Keys-eyjaklasanum. Fay ferðast um 12 km á klst.
Bandaríska veðurstofan segir mögulegt að Fay breytist í fellibyl, en ölduhæðin við strendur Flórída eru um einum og hálfum metra hærri en vanalegt er.
Morgan McPherson, borgarstjóri Key West, sagði í samtali við Fox-fréttastöðina í gær að þrátt fyrir að Fay væri ekki orðin að fellibyl, þá gæti stormurinn valdið usla, fólk gæti slasast og jafnvel látið lífið.