Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, var ómyrkur í máli um niðurstöðu ráðherrafundar NATO í dag en í ályktun fundarins var þeirri skoðun lýst að Rússum beri að standa við friðarsamkomulag sem þeir hafa undirritað ásamt Georgíumönnum.
„Mér virðist, að NATO sé að reyna að láta líta svo út fyrir, að árásaraðilinn sé fórnarlambið og hvítþvo glæpastjórn og reyna að bjarga ríkisstjórn sem er á undanhaldi," sagði Lavrov á blaðamannafundi og átti við ríkisstjórn Mikheils Saakashvilis, forseta Georgíu.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið ítrekaði í dag, að ekki væri að sjá að Rússar hefðu staðið við sinn hluta friðarsamkomulagsins þar sem rússneskur her væri enn í Georgíu.
Fréttamaður Reutersfréttastofunnar segir hins vegar, að rússneskir skriðdrekar hafi í dag farið frá Gori í Georgíu í átt til Suður-Ossetíu.