Spáir gjaldþroti stórs banka í Bandaríkjunum

mbl.is

Fjármálakreppan í heiminum er ekki afstaðin, heldur á hún þvert á móti eftir að versna, segir fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF), og spáir því að stór bandarísku banki eigi eftir að verða gjaldþrota áður en yfir lýkur.

Ennfremur sagði Kenneth Rogoff, sem nú er prófessor í hagfræði við Harvardháskóla, á ráðstefnu í Singapore, að hann teldi „ólíklegt“ að íbúðalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac, yrðu enn til í núverandi mynd innan fárra ára.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC. Rogoff var aðalhagfræðingur IMF frá 2001 til 2004. Verð á hlutabréfum í Fannie Mae og Freddie Mac hefur hríðfallið eftir að fregnir bárust af því að sjóðirnir yrðu í raun þjóðnýttir.

Rogoff segir að það versta sé „enn ekki afstaðið. Ég myndi meira að segja ganga svo langt að segja, að ástandið eigi eftir að versna. Við eigum ekki aðeins eftir að verða vitni að gjaldþroti meðalstórra banka á næstu mánuðum ... heldur stórs banka, eins af stóru fjárfestingabönkunum eða viðskiptabönkunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert