Hitabeltisstormurinn Fay fór yfir suðurhluta Flórída og hafa miklar rigningar fylgt honum. Stormurinn náði ekki fellibylsstyrk eins og veðurfræðingar höfðu spáð fyrir en mestur mældist vindhraði 105 km/klst.
Að sögn yfirmanns deildar sem fer með neyðartilfelli í ríkinu hefur mesta tjónið í dag orðið vegna rigninga. Tré og rafmagnsstaurar hafa fallið og flóð myndast vegna mikillar úrkomu.
Að sögn veðurfræðinga heldur stormurinn líklega áfram í upp Flórídaskagann, og yfir Atlantshafið, áður en hann snýr aftur til norðausturhluta Flórída. Hugsanlega mun styrkur Fay aukast við það samkvæmt veðurspá.
Að minnsta kosti 50 manns létu lífið þegar stormurinn fór yfir karabíska hafið í gær og yfir helgina, flestir á Haíti þegar rúta varð undir í flóði.